KILROY International
Stærsta fjárfesting félagsins á ferðaþjónustu sviði er félagið KILROY International A/S. KILROY er evrópskt ferðaþjónustufyrirtæki sem er leiðandi á þeim sviðum sem það starfar á. Félagið starfar nú í átta löndum, með skrifstofur á 20 stöðum í Evrópu og starfar undir fjórum vörumerkjum. Hjá félaginu starfa um 440 manns í 382 stöðugildum.
KILROY International er móðurfyrirtæki nokkurra evrópskra ferðaþjónustufélaga sem eru hvert og eitt leiðandi í þeirri tegund ferðaþjónustu sem félögin hafa skilgreint sem sinn markað. KILROY rekur vörumerki á átta mörkuðum í Evrópu og hjá KILROY starfa meira en 400 manns.
KILROY hafði vaxið umtalsvert á árunum fram að COVID og tekið yfir fjölmörg minni ferðaþjónustufyrirtæki. Starfsemin varð fyrir miklu höggi í COVID en hefur náð fyrri styrk sínum og er veltan nú meiri en hún var árið 2019. Félagið varð nokkuð skuldsett í COVID en stefnt er að því að þær skuldir verði að fullu greiddar niður á næstu þremur árum.
Helstu vörumerkin eru KILROY, Benns, Jysk Rejsebureau, Winberg Travel og ISIC. Félagið leggur mesta áherslu á einstaklingsmiðaðar ferðir og vega þar þyngst svokallaðar „backpackers“-ferðir en félagið hefur lengi verið í forystu á því sviði á Norðurlöndunum. Stærsti viðskiptavinahópur fyrirtækisins er ungt fólk og stúdentar en KILROY hefur meira en 60 ára reynslu í að þjóna þeim markhópi.
KILROY leggur mikið upp úr því að byggja upp vörumerki sín og efla það traust sem viðskiptavinirnir hafa á þeim. Mikil áhersla er lögð á menntun starfsfólks og að það búi sjálft að umtalsverðri ferðareynslu sem það getur miðlað til viðskiptavina. Undanfarin ár hefur verið fjárfest markvisst í upplýsingatækni og þjónustu á netinu og mun áfram verða leitað leiða til að þjóna viðskiptavinum sem best í gegnum netið.
Starfsemi KILROY skiptist í raun í nokkra markaði. Auk einstaklingsferðanna sem að ofan er getið hefur KILROY sérhæft sig í ráðgjöf um menntun erlendis og hópferðum skólahópa. Benns er stærsti söluaðili námsferða í Danmörku ásamt því að selja dýrari ferðir á borð við siglingar, safarí, heilsuferðir og fleira. Jysk Rejsebureau hefur líkt og KILROY sérhæft sig í einstaklingsmiðuðum ferðum en skírskotar til breiðara aldursbils.
KILROY leggur áherslu á að starfsemi fyrirtækisins gagnist ekki eingöngu viðskiptavinum heldur líka umhverfinu og öðrum hagsmunaaðilum með langtíma sjálfbærni að leiðarljósi.
Flóra Hotels er móðurfélag sex rekstrarfélaga í gisti- og veitingaþjónustu. Áhersla félagsins til framtíðar er að reka á sem hagkvæmastan hátt fyrirtæki í þessum geira og markmiðið er að stækka í samvinnu við trausta leigusala.
Dótturfélög Flóru Hotels eru: Reykjavík Residence hótel, ODDSSON Downtown hótel, Oddsson Midtown Hotel, Tower Suites Reykjavík, Port9 vínbar og In-port9 víninnflutningur.
Framkvæmdastjóri Flóra hotels er Inga Harðardóttir.
Sjá vefsíðu Flóra hotels - www.florahotels.is
Reykjavík Residence Hotel
Flaggskip fyrirtækisins er Reykjavík Residence hótel í miðborg Reykjavíkur. Hótelið samanstendur af 63 hótelíbúðum, allt frá tveggja manna stúdíóíbúðum upp í þriggja svefnherbergja íbúðir. Fullbúin eldhús eða eldunaraðstaða er í öllum íbúðum. Hótelið er til húsa í 8 fallegum byggingum afar miðsvæðis, nálægt Laugavegi en samt fjarri öllum skarkala miðbæjarins. Byggingar hótelsins eru á Hverfisgötu 21, Hverfisgötu 45, tvær byggingar á Hverfisgötu 78, Veghúsastíg 7, Veghúsastíg 9, Veghúsastíg 9a, Lindargötu 11 og Vatnsstíg 2.
Flest húsanna eru sögufrægar byggingar reistar snemma á síðustu öld en tvær þeirra voru byggðar fyrir hótelið á allra síðustu árum. Allar eru byggingarnar í góðri sátt við umhverfi sitt og uppruna og sögu þeirra er miðlað í máli og myndum í hverju húsi fyrir sig. Hótelið er fyrir kröfuharðari viðskiptavini og hefur unnið til fjölmargra verðlauna. Reykjavík Residence hefur verið starfrækt síðan í mars 2011. Hótelstjóri er Sigrún Pétursdóttir.
PORT 9
Vínbarinn Port 9 við Veghúsastíg 7-9. Port 9 var opnaður í nóvember 2016 og hefur verið vel tekið af viðskiptavinum, bæði innlendum sem og erlendum ferðamönnum. Vínbarinn leggur mikinn metnað í að bjóða upp á áhugaverð og ljúffeng eðalléttvín. Nafnið Port 9 er dregið af portinu sem er á milli húsanna Veghúsastígs 7, 9 og 9A. Sjá vefsíðu Port 9.
TOWER SUITES
Á vormánuðum ársins 2018 tók félagið yfir rekstur 8 lúxussvíta á efstu hæð turnsins við Höfðatorg í Reykjavík. Undir vörumerkinu Tower Suites Reykjavík er rekin ein glæsilegasta gistiaðstaða borgarinnar. Útsýnið af 20. hæðinni þykir einstakt og er mjög góður rómur gerður að dvöl í turninum. Reksturinn hefur gengið vel og er töluverð samlegð með öðrum hótelverkefnum. Hótelstjóri er Anni Maivel. Sjá vefsíðu Tower Suites.
ODDSSON HOTEL: RR Hótel tók við rekstri Oddsson Midtown Hotel, sem er staðsett á Grensásvegi 16a, á vormánuðum 2020. Um er að ræða stílhreint 77 herbergja hótel, hóflega verðlagt og hentugt fyrir smærri hópa og fjölskyldur. Afar vel staðsett rétt fyrir utan miðkjarna borgarinnar. Á árinu 2024 tók félagið við rekstri Oddsson Downtown Hotel og rekur þar 23 hótelíbúðir. Sjá vefsíðu ODDSSON.
In-Port9 flytur inn léttvín frá Evrópu. Rekstur hófst árið 2023.