Íslensk fjárfesting hagnaðist um 499 milljónir króna á árinu 2023, samanborið við rúmlega 1,7 milljarða hagnað árið á undan. Þrátt fyrir að hagnaður hafi minnkað milli ára var 2023 engu að síður gott rekstrarár fyrir Íslenska fjárfestingu og flest dótturfélög þess. Velta samstæðunnar var 37,3 milljarðar, sem er 11,7% aukning frá 2022, og eigið fé félagsins var 4.790 milljónir í lok árs samanborið við 4.506 milljónir árið áður. Lykileignir á borð við KILROY og Flóra hotels eru færðar á bókfærðu virði í reikningum félagsins.
Íslensk fjárfesting fjárfestir á fjórum aðalsviðum: Ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, fasteignum og í útivist og hreyfingu. Lykileignir á sviði ferðaþjónustu eru KILROY, sem starfar í átta löndum, með skrifstofur á 20 stöðum í Evrópu og starfar þar undir fjórum vörumerkjum, og Flóra hotels ehf., sem m.a. rekur Reykjavík Residence Hótel, ODDSSON hótel, Tower Suites og Port 9 vínbar. Á sviði fasteigna er félagið eigandi Stafa ehf., fasteignafélags samstæðunnar, sem átti í árslok fasteignasafn að virði um 10 milljarða kr. sem mestmegnis tengist hótelrekstri. Auk þess er helmingur í fasteignaþróunarfélaginu Íslenskum fasteignum í eigu Íslenskrar fjárfestingar. Á sviði heilbrigðisþjónustu er félagið eigandi Sóltúns heilbrigðisþjónustu sem rekur meðal annars tvö hjúkrunarheimili og á sviði útivistar og hreyfingu eru reknar bæði verslanir Útilífs og The North Face á Íslandi.
Hjá fyrirtækjum í meirihlutaeigu Íslenskrar fjárfestingar starfa rúmlega eitt þúsund starfsmenn.
Stjórnendur félagsins telja að á árinu 2023 hafi sókn hafist fyrir alvöru í ferðaþjónustunni að nýju eftir erfiðleika í tengslum við heimsfaraldur. Hótel félagsins hafa stækkað hratt auk þess sem KILROY jók tekjur sínar töluvert. Heilbrigðisþjónustan stendur vel, ekki síst vegna þess að samlegðaráhrif eru að nást fram og töluverður vöxtur væntanlegur á næstu árum. Á fasteignasviði eru mörg spennandi þróunarverkefni framundan hjá Íslenskum fasteignum á sama tíma og fasteignafélagið Stafir vex hratt og örugglega. Þá er gert ráð fyrir að umfangsmikil uppbyggingarverkefni sem hafa verið í gangi síðustu ár í rekstri Útilífs muni skila sér til lengri tíma litið.
Íslensk fjárfesting er fjárfestingarfélag í jafnri eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar.